top of page
Search

Febrúar fréttir frá Tenerife

Þetta er helst að frétta frá Tenerife í febrúar


Ljósagarður


Nýr garður á suðurhluta Tenerife sem samanstendur af ca. 4 hektara svæði mun opna dyr sínar núna n.k. 11. Febrúar rétt fyrir ofan hraðbrautina nálægt Galeón verslunarmiðstöðinni og er sá stærsti sinnar tegundar í heiminum.Þar verður hægt að bera augum ýmsar ljósasýningar en þemað er kínverskt, Great Chinese Lantern World, og verða þar til sýnis 746 mismunandi ljósasýningar, m.a. yfir 40m. langur dreki.


Veðrið


Það hefur verið frekar rysjótt veðrið núna s.l. vikur. Calima vindar (austlægir vindar sem bera með sér sand og ryk frá Afríku) hafa verið ráðandi núna í u.þ.b. 3 vikur en veðurfræðingar vonast til þess að n.k. föstudag verða komnar aðrar vindáttir sem munu blása Calimanu í burtu.... í bili allavega.

Samkvæmt veður sérfræðingum hér þá er líklegt að næstu 3 mánuðir verði hlýrri heldur en venjulega á þessum árstíma.



Sjóflugvél á milli Tenerife og Kanarí


Ný sjóflugvél er komin til eyjanna og mun hefja loftbrú á milli tveggja stærstu eyjanna á næstunni. Þetta er kærkomin viðbót við aðrar samgöngur á milli eyjanna þar sem vélin fer á milli hafnanna í höfuðborgunum, Santa Cruz á Tenerife og Las Palmas á Kanarí sem mun spara fólki að þurfa ekki að fara á flugvöllinn


Þá var einnig í fyrsta skipti rafknúin flugvél ultraligero lent og tekin á loft á Kanaríeyjum. Hleðslan dugar í allt að 4 tíma. Heimsmeistarinn mun sýna vélina á fleiri eyjum á næstu dögum.



Carnaval


Eins og minnst var á í síðasta fréttabréfi þá hefur Carnavalinu (kjötkveðjuhátíðinni) á Tenerife verið frestað til Júní. Eyjaskeggjar eru ekki par ánægðir með þessa ákvörðun, sérstaklega í ljósi þess að næsta eyja við okkur, Kanarí, ætlar að halda sitt Carnaval á réttum tíma og er undirbúningur þess nú í fullum gangi.

Löngum hefur verið "samkeppni" á milli eyjanna þegar kemur að Carnaval hátíðinni en þetta eru stærstu Carnaval hátíðir hér á jörð á eftir þeirri í Rio de Janeiro í Brasilíu.

Ferðamannafjöldi


Á s.l. ári, 2021, heimsóttu 5,2 milljónir ferðamanna allar Kanaríeyjarnar en það eru ca. 32% fleiri en árið á undan, 2020 en þó mun færri heldur en fyrir heimsfaraldurinn þar sem árið 2019 heimsóttu rúmlega 13 milljónir ferðamanna eyjarnar en rúmlega 6 milljónir eingöngu eyjuna okkar, Tenerife.



Ný vinnulöggjöf


Fyrir nokkrum dögum var samþykkt á spænska þinginu ný vinnulöggjöf. Hún felst aðallega í því að bæta vinnuöryggi fólks, þá aðallega þegar kemur að samningum, þ.e. ekki verður lengur hægt að ráða fólk í t.d. mánuð og mánuð í senn. Þetta kemur sér vel fyrir launafólk en fyrirtæki og vinnuveitendur eru ekki glaðir með þessa nýju löggjöf.

Hún var samþykkt með 175 atkvæðum á móti 174. Hægri flokkarnir voru mikið á móti þessu en það voru mistök hjá einum í PP flokknum ("sjálfstæðisflokknum") þegar hann ýtti óvart á vitlausan takka og samþykkti löggjöfina í stað þess að hafna henni.

Það hefur mikið grín verið gert að þessu og þingmanninum síðan.

Þá eru stéttarfélög hér á Kanarí eyjum að berjast fyrir því að lágmarkslaun verði hækkuð úr 965 evrum í 1.000 evrum (sem eru ca. 143.000kr.).



Ný gata opnuð eftir framkvæmdir


Mexico gatan hefur verið opnuð á ný eftir tímafrekar framkvæmdir. Hún liggur vinstra megin við hótelið H10 Las Palmeras og fyrir framan Parque Cristobal hótelið. Þar eru nú mun breiðari gangstéttar með auðveldara aðgengi fyrir t.d. hjólastóla og leiktækjum fyrir börn.



Bólusetingarpassi


Ekki er lengur skylda fyrir staði, eins og t.d. veitingastaði, að biðja fólk um bólusetningarvottorð en þeir geta þó beðið um slíkt áfram ef þeir vilja eins og staðan er núna. Það hefur verið gefið frjálst og eru sumir staðir enn að biðja um að sjá vottorðin.



Covid og grímuskylda

Smitum fer fækkandi hér á eyjunum, þann 09. Feb. greindust 582 smit á öllum eyjunum, sem er lægsta tala sem sést hefur s.l. 2 mánuði, af þeim eru 164 smit á Tenerife. Þann dag mældust 49.040 virk smit á Tenerife en á öllum eyjunum 105.039.

Álag á bráðamóttökur og spítala hefur minnkað og er nú talað um að færa eyjuna yfir á stig 3 fljótlega.

Enn er grímuskylda við lýði, bæði innan- og utandyra þó svo að ekki sé tekið tekið hart á því utandyra. Líklega mun grímuskylda utandyra verða felld niður n.k. fimmtudag (í dag 10. Feb.).



Myndlistasýning


Í þessari viku stendur yfir í menningarhúsinu í Los Cristianos sýning á verkum þar sem þemað eru loftslagsbreytingar, áhrif þeirra hér á Kanaríeyjar og baráttunni við þær. Sýningin er opin 10-13 og 17-20 og eru þar leiðbeinendur á staðnum til að túlka verkin fyrir þá sem vilja.





 
 
 

Comentarios


bottom of page