Drekatré brann
Það kom upp eldur í 200 ára gömlu, 18 metra háu drekatré í bænum Icod de los Vinos. Það var þó ekki hið fræga ca. 1.000 ára gamla tré sem kviknaði í heldur annað sem er rétt ofar í sömu götu. Eldurinn kom upp við rætur þess en þar fyrir innan var búið að myndast stórt býflugnabú og hunang og hafði víst einhver hent logandi sígarettustubb í áttina sem olli því sem varð. Sem betur fer náðist að slökkva eldinn og plantan brann ekki upp.
Vistfræðileg yfirfærsla (ecological transition)
Í vikunni heimsótti spænski ráðherra vistfræðilegrar yfirfærslu eyjarnar til að halda fund með ráðamönnum Kanarí eyja. Samþykkt hefur verið að veita 466 milljónum evra til yfirfærslu yfir í sjálfbæra orku á eyjunum. Áherslan er þá lögð á svokallað "Salto de Chira" verkefni þar sem byggja á upp stóra vatnsvirkjun en þessi vatnslón (Salto og Soria) eru á Kanarí eyjunni.
Þá hefst í næsta mánuði niðurrif á olíuhreinsunarstöðinni í Santa Cruz sem vonast er til að ljúki fyrir árið 2030 eins og fram hefur komið í fyrra fréttabréfi. Þar er svo áætlað að byggja upp svæði sem mun kallast "nýja Santa Cruz" þar sem m.a. verður byggð ný smábátahöfn og náttúrusundlaugar (um 85þ. m2), hótel og verslunarsvæði (um 60þ. m2), íþrótta og útivistasvæði (um 60þ. m2), 9 holu golfvöllur o.s.frv. en allt svæðið er yfir 500þ. m2.
Notkun sólarpanela hefur aukist mikið á undanförnum árum á eyjunum og nú hefur Adeje sýslan hafið herferð þar sem 200 sólarpanelum hefur verið komið fyrir á þaki tónlistarhússins í Adeje þorpinu og munu a.m.k. 200 heimili í innan 500m. radíus frá húsinu nota góðs af þessari sjálfbæru orku þar sem þau geta tengst þessu orkuneti.
Markmið Adeje sýslunnar er að árið 2040 mun orkunotkun þar vera 100% sjálfbær.
Mótmæli við banka
hópur eldri borgara hefur undanfarið safnast saman fyrir framan banka á eyjunni til að mótmæla því að færri og færri starfsmenn eru þar til að þjónusta viðskiptavini þar sem sífellt meiri áhersla er lögð á notkun hrað- og netbanka. Slagorð eldri borgaranna er "somos mayores, no tontos", sem útleggst sem "við erum eldri borgarar, ekki vitlaus" en mikið af þessu fólki kann ekki að nota hraðbanka eða netbanka og í kjölfarið hafa margir bankar tekið ákvörðun um að bæta persónulega þjónustu sína í útibúunum.
Minnisvarðar um Franco
Stórum minnisvarða um einræðisherrans Francisco Franco sem stendur í höfuðborg Tenerife, Santa Cruz og var reistur honum til heiðurs árið 1966, hefur nú verið gert að rífa niður. Minnisvarðinn er stór stytta af engli með útbreidda vængi og maður (sem á að vera Franco) stendur ofaná með stórt sverð yfir haus hans. Þá á líka að rífa niður stóra súlu á Spánartorginu með úthöggnum krossi í miðbæ Santa Cruz, en það er einnig minnisvarði frá tíma Franco, reistur til heiðurs þeirra sem féllu í borgarastyrjöldinni.
Covid
Þann 14. Feb. voru greind 598 smit yfir allar eyjar, þar af 263 á Tenerife. Smittölur rokka á milli daga en þann 18. Feb. voru skráð 1.079 smit yfir eyjarnar en 433 á Tenerife. Aktíf 16.583 á eyjunum og 6.536 á Tenerife. Taka skal fram að flest smit greinast í höfuðborginni og þar í kring. Ekki hefur verið mikið af skráðum tilfellum undanfarna dagana á ferðamannasvæðinu.
Þá segir tölfræðin að nýgengi smita á s.l. 7 dögum eru 220 á hverja 100.000 íbúa á Tenerife.
Enn erum við á stigi 4 en s.l. fimmtudag var þó slakað á takmörkunum og t.d. veitingahús og barir geta verið opin til kl. 03.00 og mega hafa 75% utandyra og 50% innandyra og mega nú 8 sitja saman við borð, veitingamönnum til mikillar ánægju. Enn er þó bannað að taka dansspor á stöðunum.
Verðhækkanir á bensíni
Hér heldur bensínverð áfram að hækka, 3ju vikuna í röð, eins og víða annar staðar. Hefur verðið verið að hækka nánast dag eftir dag og er nú verð á lítranum af 95okt. bensíni að meðaltali 1,20 evrur, eða ca. 170kr.
Ferðamannaiðnaðurinn
Bretar eru lang stærsti hluti ferðamanna sem heimsækja eyjarnar en með hertum takmörkunum gagnvart þeim þá hafa ekki margir komið þaðan s.l. mánuði. Um 100.000 hótelbókanir frá Bretlandseyjum voru afturkallaðar einungis yfir jólahátíðina.
Nú lítur þetta betur út þar sem slakað hefur verið á takmörkunum fyrir ferðamenn utan Evrópusambandsins, þó svo seint hafi verið og hefur kostað ferðamannaiðnað eyjanna milljónir evra.
Comments