Sumarið komið
Nú er sumarið svo sannarlega komið eftir skrýtinn vetur. Það hefur ýmist verið heitt eða frekar svalt síðustu tvo mánuði vetrarins, mars og apríl. En framan vetri lofaði hann nokkuð góðu veðurlega séð. T.d var febrúar 1.2 gráðum heitari en vanalega.
Sumarið er komið með meiri hita og meiri raka. Eyjaskeggjar taka þessu fagnandi og sér maður að enn meira af heimamönnum er á ströndinni um helgar en í vetur.
Skólarnir á Tenerife klárast núna í lok júní og byrja svo ekki fyrr en um miðjan september, þannig að börnin fá þetta fína sumarfrí.
Fjöldi ferðamanna frá Skandinavíu
Skandinavar eru ekki að koma í jafn miklu mæli, að Íslendingum undanskildum, og fyrir Covid. Hvað veldur er erfitt að segja en ferðamálaráð hér hefur haft þetta til umræðu um hvað skal gera til að fá þessar þjóðir til að stökkva á bátinn líkt og Íslendingar hafa gert. Sas hefur ekki boðið upp á jafn ört flug og fyrir Covid og stendur ekki til fyrr en næsta haust. Kanaríska ferðamálaráðið hefur gefið það út að hjá þessum þjóðum ásamt austur evrópu þjóðum sé mesti vaxtarmöguleiki eyjanna í ferðamannaiðnaðinum og biðla til allra rekstraraðila að huga að þessum þjóðum þegar kemur að þjónustu og afþreyingu á eyjunum.
Eldur kom upp á hóteli í Las Americas
Þann 4. maí varð uppi fótur og fit á Vulcano hótelinu á Las Americas svæðinu þar sem upp kom eldur á hótelinu og það var tæmt.
Nokkrir slökkviliðsbílar mættu með hraði og þó nokkrir lögreglubílar og fólk og starfsmenn biðu fyrir utan hótelið en um 617 manns þurftu að yfirgefa hótelið með hraði og enginn mannskaði hlaust af. Eldurinn kom upp í heilsulindinni á hótelinu, nánar tiltekið í einum sauna klefanum, og tók það slökkviliðið um hálftíma að ná yfirráðum á eldinum. Fólk gat þó farið yfir á Bitácora hótelið hinum megin við götuna þar sem það er í eigu sömu hótelkeðju (Spring hotels) í þá ca. 2 klt sem allt stóð yfir.
Bláum fánum fækkar
Kanarí eyjarnar státa í ár af 58 bláum fánum, 54 af þeim á ströndum og 4 í litlum höfnum, en hefur þeim fækkað um 6 síðan í fyrra. Hér á Tenerife er að finna 12 strendur með bláa fánanum en hefur einum fána verið kippt í burtu af Troya ströndinni á Adeje og einum af Playa Jardín ströndinni sem er í Puerto de la Cruz. El Duque og Torviscas strendurnar í Adeje fá að flagga fánanum og einnig El Camisón og Las Vistas strendurnar í Arona. Nokkrar ástæður eru fyrir því að strendur fái þennan bláa fána sem viðurkenningu en þær eru m.a. að gæðin í sjónum séu mjög góð, lifverðaþjónusta sé í topp standi, aðgangur sé óaðfinnanlegur (t.d. fyrir fatlaða) o.s.frv.
Skortur á bílaleigubílum
Þegar heimsfaraldurinn skall á fyrir rúmlega 2 árum þá skelltu mörg fyrirtæki hér á Tenerife í lás og voru lokuð svo mánuðum skipti. Þetta á að sjálfsögðu við um bílaleigur líka, eins og annars staðar í heiminum, en margar leigur losuðu þá við stóran hluta af bílaflota sínum. Bílaleigur hér á Kanarí eyjum seldu eða losuðu sig við ca. 50þús. bíla en nú eru ferðamenn farnir að streyma aftur til eyjanna og hefur á undanförnum mánuðum verið þó nokkur skortur á bílum. Hafa leigurnar reynt að kaupa nýja bíla en afhendingartíminn dregist mikið þar sem skortur er m.a. á tölvukubbum í bíla. Talið er að bílaflotinn verði ekki nægur til að sinna eftirspurninni fyrr en á næsta ári, 2023.
Morð í Los Cristianos
82ja ára gömul kona var myrt í íbúð sinni á Avenida Los Playeros í Los Cristianos, Arona, þann 11. maí s.l. Það var sjálfur eiginmaður konunnar, 83ja ára, sem myrti hana en hjónin voru frá Galicia, á norður Spáni. Þau voru í fríi í sinni eigin íbúð í Los Cristianos þar sem verknaðurinn átti sér stað en hann reyndi síðan að fremja sjálfsmorð. Maðurinn hafði stuttu áður fengið þær fréttir að hann væri með ólæknandi krabbamein.
Þjóðhátíðardagur Kanarí eyja
Þann 30. maí halda Kanarí eyjarnar sinn dag hátíðlegan, eða "El día de Canarias". Hátíðahöld verða um alla eyju en dagurinn er að sjálfsögðu löglegur frídagur. Margir eyjaskeggjar klæðast tilheyrandi þjóðbúningum en eyjarnar eiga allar sinn sérstaka búning, og sumar eyjar fleiri en einn og fer það þá eftir svæðum.
Það verður mikið húllumhæ við menningarmiðstöðina í Los Cristianos að kvöldi dagsins 29. maí, dansleikur og þess háttar þar sem fólk mun klæðast þjóðbúningum en það þarf að panta þar borð þar sem hver og einn kemur með mat og borga inn.
Carnaval í Santa Cruz
Undirbúningur er nú á fullu fyrir kjötkveðjuhátíðina í höfuðborginni, Santa Cruz en henni var frestað frá því fyrr í vetur. Þann 3. júní byrjar hátíðin og stendur yfir til 26. júní, en aðal fjörið á götunum er síðustu 4 dagana. Fyrir það er verið að velja t.d. drottningu hátíðarinnar og fleiri "keppnir" þar sem m.a. söng- og danshópar taka þátt en það er haldið fyrir luktum dyrum og þarf að kaupa aðgang inn. Það má búast við tugi, ef ekki hundruði þúsundum á götunum þessa síðustu 4 daga enda mikil spenna í lofti þar sem Carnavalið hefur ekki verið haldið síðan í febrúar 2020.
Vatnasirkus
Frá 26. maí til 19. júní verður hægt að fara á einstakan viðburð en þá mun vatna sirkusinn aquacirco vera með sýningar í borginni La Laguna (aquacirco.com). Þessum sirkus hefur verið líkt við Circ du Soleil sirkusinn fræga, nema hvað að þeirra viðburður fer að mestu leyti fram í eða á vatni. Hægt er að fá frekari upplýsingar og kaupa miða á síðunni aquacirco.com
Stolið úr töskum
Þó nokkuð hefur verið um að stolið hafi verið úr töskum á flugvellinum á suður Tenerife (Reina Sofia). Íslendingar hafa ekki farið varhuga af þessu og þó nokkrir lent í að fingralangir þjófar hafa opnað töskur þeirra og náð að stela verðmætum. Mælum við með því að setja aldrei nein verðmæti í töskur sem eru innritaðar og plasta töskurnar eða loka þeim mjög vel. Þeir hafa komist í töskur sem eru með lásum með því að stinga rennilása opna og loka aftur.
ALDI opnar á eyjunum.
Það bætist í úrval lágvöruverslana á eyjunum þegar þýska verslunarkeðjan ALDI opnar súpermarkaði sína hér á næstu mánuðum. Munu 10 verslanir verða opnaðar í allt, þar af nokkrar á Tenerife, en hér höfum við nú þegar lágvöruverslanir á borð við LIDL, Alcampo, Mercadona og Hiperdino svo fáeinar séu nefndar.
Комментарии